Jón Sighvatur Jacobæus

Árin á Íslandi og Danmörku

Jón Sighvatur Jacobæus fæddist þann 15. febrúar, 1842 í bænum Keflavík á Reykjanesi. Hann var skírður stuttu seinna, eða þann 1. mars. Foreldrar Jóns voru Holger Jacobæus, kaupmaður í Keflavík og kona hans Charlotte Marie Jacobæus. Holger Jacobæus var þá verslunarstjóri fyrir Knudtzons verslunina í Keflavík.

Knuttzon verslunuarhúsið í baksýn. Mynd tekin 1912 af Magnúsi Ólafssyni. Daglaðið Tíminn, birt 1. apríl 1989. Er á timarit.is

Jón SIghvatur var 14 barn foreldra sinna. Þau höfðu þá þegar misst 4 þeirra, 3 stuttu eftir fæðingu og einn dreng þegar hann var aðeins eins og hálfs árs. Systkini Jóns Sighvats sem voru á lífi þegar hann fæðist voru eftirfarandi:

  1. Regína Magdalena Jacobæus – 17 ára (f. 24. maí 1824)
  2. Holger Christen Adolph Jacobæus – 11 ára (f. 13. maí 1830)
  3. Christine Marie Jacobæus – 10 ára (f. 18. september 1831)
  4. Amalie Fredrika Unnur Jacobæus – 9 ára (f. 18. september 1832)
  5. Paul Holst Jacobæus – 8 ára (f. 12. desember 1833)
  6. Christjan Wilhelm August Jacobæus – 7 ára (f. 19. janúar 1835)
  7. Charlotte Georgina Holgerine Jacobæus – 5 ára (f. 18. febrúar 1836)
  8. Helga Margarethe Jacobæus – 4 ára (f. 13. júlí 1837)
  9. Peter Adolph Seerup Jacobæus – 3 ára (f. 26. september 1838)

Afi Jóns Sighvats war Christian Adolph Jacobæus (f. 1767, d. 1846). Hann var líka fæddur í Keflavík og starfaði sem kaupmaður þar alla sína tíð. Langafi Jóns Sighvats var hinn þekkti Holger Jacobæus (f. 1698, d. 1772) sem var síðasti verslunarstjóri konungs þegar einokunarverslun Dana hætti. 

Holger Jacobæus, faðir Jóns Sighvats starfaði sem verslunarstjóri fram á vor 1843, þegar honum er sagt up störfum.  Það verður til þess að hann fer til Danmerkur til að leita sér að nýrri vinnu.  Kona hans Charlotte Marie Jacobæus var þá ófrísk og flutti á bæin Hrúðurnef í Leiru með níu börn.  Þar fæðist 15 barnið, Hans Hendrik Linnet Jacobæus 4. desember 1843.  Um mitt árið 1844 siglir Charlotte Marie Jacobæus til Danmerkur með öll börnin og aldraða móður sína.  Þau fara til Fredriksberg í Kaupmannahöfn, þar sem Holger Jacobæus var staddur. Þar búa hjónin næsta árið, því þann 31. ágúst 1845, eignast þau tvíbura sem eru skírðir Anton Michael Erick Jacobæus og Charlotte Lovise Caroline Jacobæus.

Um þetta leyti er Danska stjórnin að setja af stað tilraunir til síldveiða norður af og í kringum Færeyjar.  Danska stjórnin fékk Hans Á. Clausen kaupmann, sem þá var fluttur til Kaupmannahafnar frá Ólafsvík, til að stjórna þessum tilraunaveiðum.  Hans Á. Clausen réð þá Holger Jacobæus til þess að vera fulltrúi sinn í Færeyjum, þar sem hann gat ekki verið þar sjálfur allan tíman.

Lífið í Færeyjum

Það verður svo úr að Holger Jacobæus og kona hans, flytja til Þórshafnar í Færeyjum fljótlega eftir fæðingu tvíburana.  Það virðist sem annar tvíburin hafi dáið, því í manntalinu 1850, eru þau hjón í Færeyjum með yngri börnin.  Þá er Anton Michael Erick Jacobæus 5 ára, en hinn tvíburin ekki talin með. 7. apríl 1851 fæðist 18 og síðasta barn þeirra hjóna, Vellius Carl Ferdinand Emil Jacobæus í Þórshöfn.

Svarta húsið fyrir miðju með gras þakinu er húsið þar sem Holger Jacobæus fjölskyldan bjó í Þórshöfn, Færeyjum 1845 til 1858 . Frá Jim Jackson, Pymble Sydney

Holger Jacobæus gekk vel fyrstu árin sem fulltrúi fyrir hönd Hans Á, Clausen.  Báðir eru sagðir hafa staðið sig mjög vel í stjórnun þessa tilraunaveiða verkefnis.  Fiskveiðarnar leggjast svo af 1848 vegna lélegra fiskveiða.  Við það missir Holger Jacobæus vinnuna við það verkefni.  Holger tekst að fá vinnu hjá Dönsku einokunarversluninni í Færeyjum sem eftirlitsmaður með fiskverkun.  Kona Holgers, Charlotte Marie deyr svo 31. janúar 1854. 

Við andlát Charlotte, kemur umrót á fjölskylduna og fer að halla undan fæti hjá Holger. Hann missir vinnuna enn aftur 1856 þegar Danska einokunuraverslunin í Færeyjum hættir.  Samkvæmt heimildum frá Færeyjum mun Holger hafa lagst í drykkju og ekki hugsað vel um börnin.  1858 er hann sviptur sjálfræði þar sem hann gat ekki séð fyrir sér eða sínum börnum.  Það er svo bóndin Samuel Johannsen í þorpinu Eiði, sem aumkvast yfir hann og þar deyr hann þann 20 Aprlíl 1864.

Í þessu umróti verður það úr að nokkur af börnum þeirra hjóna fara frá Færeyjum til Kaupmannahafnar.  Þeirra á meðal er Jón SIghvatur Jacobæus.  Hann siglir 14 ára gamall til Kaupmannahafnar 28. apríl 1856.  Ekki er vitað hvert Jón Sighvatur fór, en það er vel hugsanlegt að hann hafi farið til eins af sínum eldri systkinum, sem voru þá í Kaupmannahöfn.

Sjómaður endar í Ástralíu

Ekki er heldur vitað hvað Jón Sighvatur hefur tekið sér fyrir hendur í Danmörku, en það er víst að hann hefur haft áhuga á siglingum, því 2. nóvember 1861 fær hann útgefið háseta skírteini “Second Mate“ frá Privy council í Liverpool, Englandi.  Privy Council sá um að prófa og úthluta iðnaðaramanna réttindum fyrir Stóra Bretland og þeirra nýlendur á þessum tíma.  Jón er þá búin að breyta nafni sínu í John Jackson. Hér eftir nota ég það nafn. 

Sem John Jackson, annar háseti ræður hann sig á skútu sem siglir til borgarinnar Sydney í Ástralíu.  Þar kemur hann þann 20. desember 1861.  Það virðist sem hann hafi komið frá Nýja Sjálandi, því skútan sem hann kemur á til Sydney kom frá Wellington á Nýja Sjálandi.  Einn af bræðrum Jóns Sighvats Jacobæus sem hét Peter Adolph Seerup Jacobæus settist að á Nýja Sjálandi um svipað leyti.  Hann gerðist námamaður í bænum Otago á Nýja Sjálandi og giftist þar og eignaðist börn.

John Jackson sest að í Sydney, en stendur í siglingum frá Sydney borg á ýmsum skipum næstu árin eftir komuna.  Við það öðlast hann meiri reynslu þannig að árið 1867 er hann komin með háseta leyfi i.e. “First Mate“ sem var gefið út af Privy Council í Liverpool.  Tæpu ári seinna fær hann loksins skipstjóra réttindi i.e. “Master“. 

Skipstjórnarréttindi gefin út a John Jackson 24. júní 1868 (Jim Jackson, Pymble, Sydney)

John siglir sem skipstjóri á ýmsum skipum á milli Englands og Sydney, Ástralíu.  Hann er skipstjóri á skipi sem hét “Grove Iron“ og var það í eigu George Richard Dibbs.  G. R. Dibbs var fæddur í Sydney og var á þessum tíma þingmaður í fylkinu Nýja Suður Wales (NSW), þar sem borgin Sydney er höfuðborg.  John var einnig skipstjóri á skútu sem hét Orange Grove.  Hún var einnig eigu G. R. Dibbs, sem gerði skipið út frá Sydney borg.  Það skapaðist mikill vinskapur á milli John Jacskon´s og G. R. Dibbs, sem seinna varð fylkisstjóri NSW fylkisins til margra ára. 

Það er svo um 1875 að John Jackson er beðin um að taka við skipstjórn af skútu sem hét Francisco Calderon.  Fyrirtækið sem keypti skútuna hét Dangar, Gedey og co.   Fyritækið var í eigu Fredrick Holkham Dangar og G. R. Gibbs sem kom fyrr við sögu.  Þriðji eigandinn sem átti smá hlut var engin annar en stjórnmálamaðurinn  William Ewart Gladstone.  Hann var þá nýbúin að láta af störfum sem forsætisráðherra Bretlands frá 1868 til 1874. 

Skútan Francisco Calderon var skip sem hafði verið smíðað 1873 og var síðan notað við flutninga á þrælum á milli Kína, Peru og Chile.   Þessir þrælaflutningar voru loksins bannaðir 1874 og skútan var þá seld til Sydney.  Við komuna til Sydney kom í ljós að um borð voru um tvö tonn af fóta og handjárnum, sem ekki höfðu verið tekin frá borði.  Eftir hreinsun og breytingar, var skútan skírð upp á nýtt Gladstone til heiðurs William Ewart Gladstone, sem varð seinna þrisvar sinnum forsætisráðherra Bretlands í viðbót. 

Gladstone – State Library of Victoria

John Jackson er skipstjóri á Gladstone þangað til í nóvember 1884.  Á þessum tíma var hann í siglingum á milli Ástralíu og Englands með ull og aðrar vörur, ásamt farþegum.  Á hann er minnst í bókinni “This Century of Ours“ sem fjallar um Dangar, Geyede & Co, sem var leiðandi fyrirtæki í Áströlsku atvinnulífi á þessum tíma.  Þar er sú saga sögð að John Jackson hafi verið boðið í heimsókn til W. E. Gladstone, forsætisráðherra Bretlands yfir helgi.  Til minningar um þá heimsókn, gaf W. E. Gladstone honum mynd af sjálfum sér þar sem hann situr við tré sem skógarhöggsmaður.  Þessi mynd er enn þá til og er í eigu fjölskyldunnar. 

Mynd af William Ewart Gladstone sem skógarhöggsmaður. Hawarden, 1877. National Library of Wales.

Ein sagan segir að í eitt skipti þegar Gladstone var að sigla frá London til Sydney, þá féll einn af áhöfninni fyrir borð.  Sjómaðurinn, sem var Norðmaður náði að hrista af sér olíubornar buxur og skó til að reyna að halda sér á floti.  Stuttu seinna kom Albatross fugl og réðst á hann þar sem höfuð hans stóð upp úr sjónum.  Norðmaðurinn varði sig með höndunum og tókst að grípa um háls fuglsins og halda höfði þess undir yfirborðinu til að drekkja honum.  Hann gat síðan notað fugls hræið sem björgunarhring, þar sem það flaut vel á sjónum.  Áhöfninni tókst að setja út bát og ná Norðmanninum aftur um borð við erfiðar ástæður, en ekki síst fyrir það hversu vel hann hélt sér á floti hangandi á fugls hræinu.  Þessi saga birtist í flestum blöðum samtímans.

John Jackson lengst til vinstri, um borð á skipinu Gladstone. Mynd tekin 1900 – State Library of NSW

Árið 1884, er vinur John´s,  G. R. Dibbs fjármálaráðherra NSW fylkisins.  Upp kemur sú staða að ráða þarf mann til þess að hafa umsjón með öllum eignum Sydney hafnarinnar.  G.R. Dibbs talar við John og segir honum að hann muni koma til með að tilnefna John í starfið. Þetta var talið svo mikilvægt starf að það þurfti að tilnefna menn í það og svo varð fylkis þingið að greiða atkvæði um hver fengið starfið. John Jackson samþykkti þetta og lét líka sinn atvinnurekanda Dangar, Geyed & co vita að það gæti farið svo að hann fengi starfið og myndi hætta hjá þeim. Það var auðsótt, því það var mikil vinskapur á mill Johns, G. R. Dibbs og eiganda Dangar, Geyed & co. 

Þessi þingfundur er haldin um morgun, en einmitt þann sama morgun er John Jackson að sigla úr Sydney höfn á Gladstone, áleiðis til London með vörur.  Það kom svo í ljós að annar maður hafði líka verið tilnefndur til starfsins, þannig að umræður drógust fram eftir morgni, en málið var svo afgreitt um 11 leytið og var John Jackson skipaður í starfið.  Þá hleypur G. R. Dibbs niður á höfn og skipar einum skipstjóra á einum af dráttarbátunum að sigla hið snarasta á eftir skútunni Gladstone og sækja John Jackson.  Það varð úr að dráttarbáturinn náði Gladstone og Jackson kom til baka með honum, eftir að hafa skipað fyrsta hásetan sem skipstjóra. 

John Jackson er svo skipaður yfirmaður Port Jackson hafnarinnar í Sydney frá 1 Nóvember 1884.  Hann starfaði sem hafnarstjóri fram til dauða dags. 

John Jackson giftist tvisvar.  Fyrst þann 14 Janúar 1868.  Þá giftist hann Matilda Cashman, sem var frá Sydney og var þriðja barn James Mathew Cashman, en hann var skrifstofustjóri í útlendinga deild fylkisins og Ann konu hans.  John Jackson og kona hans, Matilda eignuðust fimm börn, þrjár stúlkur og tvo drengi.  Kona Johns, Matilda deyr árið 1896. 

John Jackson giftist aftur ekkju sem hét Mary Dunstan árið 1902.  Þau eignuðust óvænt einn son sem var skírður James William Jackson, en hann fæddist árið 1905.

John Jackson (Jón Sighvatur Jacobæus) á efri árum. Jim Jackson, Pymble, Sydney

John Jackson deyr í Sydney 7. desember 1907.  Um hann er ritað eftirfarandi minningargrein sem birtist í blaðinu Sydney Morning Herald 9. desember 1907

“Skipstjórinn John Jackson, sem hefur um ára raðir verið hafnarstjóri í Sydney og nýlega, áður en Mr. Hickson kemur frá Englandi verið stjórnarmaður hafnarsjóðs, dó síðastliðin laugardag, eftir þriggja mánaða veikindi.   Hann var traustur starfsmaður fylkisins og starfaði líka sem yfirmaður allra fasteigna sem fylkið á við höfnina, þar með talið í Rocks hverfinu.  Skipstjórinn Jackson var vel virtur af öllum þeim sem hann átti samband við og dó frá störfum sínum.  Áður en hann tók upp störf í þágu fylkisins, þá var hann skipstjóri á mörgum skútum sem gerðu út frá Sydney höfn, einna helst skútunni Gladstone, þar sem hann ferjaði marga innflytjendur frá Englandi.  Skipstjórinn Jackson var fæddur á Íslandi.  Hann yfirgaf landið á barnsaldri og sagði oft með trega að hann hefði aldrei farið aftur til landsins sem hann fæddist á.“   

Það er töluvert ritað um John Jackson í blöðum hér í fylkinu.  Enda var hann í ábyrgða mikilli stöðu, þar sem hann var hafnarstjóri og sá um eignir hafnarinnar í Sydney.  Upp komu ýmis ágreinings mál sem hann tók þátt í því að leysa farsællega.  Allir sem minnast á hann telja að hann hafi verið mikill sóma maður og heiðarlegur í alla staði.  John var hár í vexti og er sagður hafa verið 193 centi-metrar á hæð.  Hann safnaði miklu skeggi sem hann hélt til dauða dags. Í dag er nafn hans á minnismerki sem var afhjúpað 1992 niður við Sydney höfn, til minnis um frækna skipstjóra sem tóku þátt í þróun Ástralíu.

Eins og fyrr er sagt, þá eignaðist hann sex börn með tveimur konum.  Afkomendur hans eru orðnir töluvert margir og hafa sumir hverjir haft mikinn áhuga á fyrri árum hans. Ég setti mig í samband við Jim Jackson, barnabarn John Jackson og hefur hann hjálpað mér með upplýsingar og gögn. Hann á þakkir mínar skilið fyrir aðstoðina. Hann hefur líka verið að skrásetja ættir og sögu fjölskyldunnar og gat ég aðeins hjálpað honum með það.

Höfundur ásamt Jim Jackson, barnabarn John Jackson (Jon Sighvatur Jacobæus)