Fyrstu Íslendingarnir

Simmi Valgeirsson, Formaður Íslendingafélagsins í Nýju Suður Wales, nóvember 2019.

Sem formaðu Íslendingafélagsins, hef ég í gegnum tíðina oft velt því fyrir mér hvaða ástæður verða til þess að fólk rífur sig upp frá heimalandi sínu og flytur alfarið í aðra heimsálfu eins og Ástralíu.  Bein fjarlægð á milli Reykjavíkur og Sydney mælist vera 16,604km.  Það er því varla hægt að komast lengra frá Íslandi en hingað! 

Eftir 30 ára samskipti við Íslendinga sem hafa flutt hingað, get ég sagt að það eru helst fjórar ástæður sem gerir það að verkum að fólk fer frá Ísland og út í hinn stóra heim!  Í fyrsta lagi eru það efnahags ástæður á Íslandi.  Þegar fólk lendir í langvarandi atvinnuleysi, eins og hefur skeð á Íslandi, þá leitar það oft til annara landa til að geta framleitt sér og sínum.  Í öðru lagi eru það fjölskyldubönd, þar sem Íslendingur hefur eignast Ástralskan maka.  Sumar af þeim fjölskyldum búa um tíma á Íslandi, en enda oftast á því að flytja til Ástralíu.  Í þriðja lagi eru það menntamál.  Íslendingar eru duglegir við að mennta sig.  Hér er töluð enska, þannig að skóla enskan sem Íslendingum er kennt hentar ákaflega vel fyrir námsfólk sem hingað kemur.  Flest af námsfólkinu er hér eingöngu á meðan á námi þeirra stendur, en einstaka aðilar setjast að hérna til frambúðar.  Í fjórða lagi er það sem ég kalla ævintýramennska.  Þetta eru Íslendingar sem koma hingað á ferðalögum og á endanum líkar svo vel að þeir setjast að.

Þessar hugleiðingar mínar leiddu til þess að ég fór að velta því fyrir mér, hver skyldi vera fyrsti Íslendingurinn sem flutti til Ástralíu.  Það varð til þess að undanfarin ár hef ég verið að grúska í heimildum hér í Ástralíu og á Íslandi.  Ég tel mig hafa loksins fundið nokkra merka menn sem hingað komu og settust að í Ástralíu.  Mér hefur ekki tekist að finna upplýsingar um þá alla, því flestir þeirra taka upp nýtt nafn þegar hingað til Ástralíu er komið. 

Hér á eftir er yfirlit fyrir þá fyrstu átta sem fundist hafa.  Fyrir suma hefur mér tekist að grafa upp töluvert af upplýsingum og er þá frekari vef tengill með meiri upplýsingum um þá.  Fyrst er rétt að greina frá í stórum dráttum hvenær og hvernig Ástralía byggðist. 

Ástralía byggist upp af Evrópubúum

Fyrstu Evrópubúar sem hingað komu, stigu á land í Janúar 1788.  Þessi fyrsta byggð var fanganýlenda og reis hérna í Sydney borg.  Þetta voru um 1,400 manns sem byrjuðu að byggja upp Sydney.  Síðan komu fleiri fangar og frjálsir innflytjendur frá Englandi.  Eftir að fyrsta gullið fannst hér um 1851, fór að streyma hingað fólk frá öllum þjóðum jarðarinnar.  Í dag er mannfjöldi Ástralíu komin yfir 25 milljónir.  Af þeim eru um 30% innflytjendur, þ.e.a.s. fólk sem er ekki fætt í Ástralíu.

Mynd af Jørgen_JørgensenJörundur Hundadaga Konungur

Það má til gamans geta að sá allra fyrsti maður sem hingað kom, og hafði tengsl við Ísland var engin annar en Jörgen Jörgensen, eða eins og Íslendingar þekkja hann, Jörundur Hundadaga konungur.  Eftir ævintýri hans á Íslandi 1809, fer hann til Englands og endar þar í skuldafangelsi.  Árið 1825 er  hann svo sendur sem fangi til bæjarins Hobart í Tasmaníu, sem er eyja rétt suður af Ástralíu.  Þar eyddi hann sínum eftirlifandi árum sem lögregluþjónn og lenti þar í hinum ýmsu ævintýrum.  Hann deyr svo í þorpinu Hobart í janúar 1841. 

Það sem kannski færri Íslendingar vita er að hann hafði áður komið til Sydney í Ástralíu.  Sem ungur maður siglir hann frá Cape Town í Suður Afríku og kemur til Sydney aldamótin 1800, aðeins 12 árum eftir að nýlendan var stofnuð.  Þá búa hér í Sydney um 6 þúsund manns.  Ári seinna ræður hann sig sem háseti á skip sem hét Lady Nelson.  Það skip var gert út frá Sydney og sent til eyjunnar Tasmaníu með fanga og vistir til að landnema eyjuna, sem fram til þessa var ekki byggð af Evrópubúum.  Þáverandi landstjóri óttaðist að Hollendingar myndu nema Tasmaníu ef ekki væru Evrópubúar þar.  Jörgen var því einn af þeim sem settu upp fyrstu byggðina í Tasmaníu, sem síðar varð borgin Hobart.  Það má því segja að hann hafi verið að koma heim, þegar hann kom í seinna skiptið sem fangi til Hobart árið 1825.

Leitin að fyrstu Íslendingunum

Ég hef aðallega notað veraldarvefinn við þessa leit mína.  Nánast allar þessar upplýsingar eru að finna á netinu.  Hins vegar hef ég þurft að tengja þessar upplýsingar saman, því oft á tíðum var engin tengin við Íslendinginn sem bjó hér og hver hann var á Íslandi þar sem þeir oftast notuðu annað nafn og ekki finnast fæðingadagur fyrir þá hér.  Það hefur því oft reynst ansi erfitt og ekki hefur tekist að gera það fyrir alla.  Ég hef líka notið aðstoðar annara áhugamanna og afkomenda þessara Íslendinga.  Einnig fékk ég hjálp frá Íslenskum vini sem hér býr og heitir Elín de Ruyter (er upphaflega Ómarsdóttir) og býr í Brisbane.  Hún hefur líka töluverðan áhuga á ættfræði.  Með hennar hjálp tókst að bæta við listann. 

Fyrstu átta Íslendingarnir

Eftirfarandi er listi yfir fyrstu átta Íslendingana sem heimildir finnast um hér í Ástralíu. Þetta eru allt menn, sem komu hingað fyrir aldamótin 1900. Ég hef grafið upp freakri upplýsingar um Árna Ólafsson Thorlacius og Jón Sighvat Jacobæus. Ég stikla á stóru í æfi þeirra tveggja og hef sett myndir eftir því sem á við. Það er tengill á þær greinar í yfirlitinu um þá.

1849 kemur Holger Peter Clausen til Melbourne

Holger Peter Clausen er fæddur 1. ágúst, 1831 í Ólafsvík á Snæfellsnesi.  Foreldrar hans voru Hans Arreboe Clausen, etatsráð og stórkaupmaður og kona hans Ása Óladóttir Sandholt.  Hann elst upp á Íslandi til níu ára aldurs en fer svo til Kaupmannahafnar árið 1840. Hann fer svo frá Danmörku og kemur til Melbourne í Victoríu fylki árið 1849, átján ára gamall.  Hann kynnist ungri stúlku þar sem hét Harriet Barbara Cook.  Þegar gull fannst svo seinna í Ástralíu, þá fór hann til bæjarins Bendigo, sem er í dag um 150km fyrir norðan Melbourne til að grafa eftir gulli.  Hann yfirgefur Ástralíu 1853 og fer til Englands og Kaupmannahafnar að starfa.  Það er svo í Kaupmannahöfn að hann giftist  Harriet Barböru Cook þann 1. febrúar, 1860.  Hann átti fjögur börn með fyrri konu sinni, Harriet Barböru Cook.  Þau voru öll fædd í Kaupmannahöfn, Hans Arrebo Clausen fæddur 1859, Amy Clausen fædd 1860, Vigand Clausen fæddur 1863 og Olga Clausen fædd 1866.  Hann kemur svo aftur til Melbourne árið 1862 og er þar við kaupmennsku fram til 1870.  Þá yfirgefur hann Ástralíu, konuna og börn sín þar.  Hann fer þá til Íslands og býr þar fram til æviloka.  Hann giftist aftur á Íslandi og átti fleiri börn.  Hann varð svo þingmaður Snæfellinga frá 1880 til 1885.  Öll börn hans frá fyrra hjónabandi enduðu svo uppi í Ástralíu.  Olga, yngsta dóttirin tók við ritstjórn tímaritsins Norden árið 1904.  Norden, sem var gefið út í Melbourne var tileinkað innflytjendum frá Skandinavíu.  Bróðir hennar, Hans Arrebo og kona hans voru hennar helstu aðstoðarmenn við útgáfuna.  Útgáfa Norden hætti 1940.

1855 kemur Árni Ólafsson Thorlacius til Sydney

Árni Ólafsson Thorlacius fæddist á bænum Innri-Fagradal á Skarðströnd, 28. nóvember, 1836.  Hann kemur til Sydney í Ástralíu frá Hong Kong árið 1855 og kallar sig þá Antonio Woolier.  Aðeins tveimur árum seinna verður hann þáttakandi í miklum harmleik sem á sér stað í Sydney, þegar skip ferst með manni og mús.  Árni fremur þá hetjudáð sem er enn í minnum höfð hér í fylkinu.  Ég hef sett saman æfi hans í stóru dráttum sem má finna hér.

1861 kemur Jón Sighvatur Jacobæus til Sydney

Jón Sighvatur Jacobæus fæddist í Keflavík þann 15. mars, 1842.  Hann kemur til Sydney í Ástralíu 1861.  Þá kallar hann sig John Jackson.  Hann starfaði framanaf á sjónum, fyrst sem háseti og síðar sem skipstjóri á skútum sem voru gerðar út frá Sydney.  Hann fer svo í land og gerist hafnarstjóri Sydney borgar.  Ég hef líka sett saman æfi hans í stórum dráttum sem má finna hér.

1864 kemur Guðmundur Árnason til Melbourne

Guðmundur Árnason fæddist í Hörgárdal, Árneshreppi þann 10. desember 1840.  Hann kemur til Melbourne í Victoríufylki árið 1864 og kallar sig þá Charles Anderson.  Hann býr í borginni Melbourne og nágrannasveitum.  Hann virðist hafa starfað sem námamaður.  Hann giftist Emmu Burgess Anderson (Fædd Tunn 15. mars, 1854) 14. ágúst 1872.  Þau eignast eina dóttur,  Olof Anderson 28. december 1878.  Guðmundur deyr í Melbourne 12. júlí 1888.   Ekki er meira vitað um hann og hans afkomendur.

1872 kemur Þorkell til Brisbane

Danskur innflytjandi til Ástralíu skrifaði bók um ævintýrin sín þar.  Hann hét Thorvald Weitemeyer og bókin hans heitir “Missing friends”.  Í henni skrifar hann um Íslending sem hann segist hafa kynnist árið 1871, þegar þeir ferðast saman á skipi frá Hamborg til þorpsins Bowen, sem er í fylkinu Queensland.  Hann segir að Þorkell hafi verið um 28 ára gamall og kom frá Danmörku.  Hann hafi verið í landbúnaðarskóla í Kaupmannahöfn og svo síðar unnið á eyjunnu Als sem umsjónarmaður á stórum bóndabæ.  Fljótlega eftir komuna til Bowen er Þorkelli boðin vinna á sykurreyrbúgarði í MacKay, sem er fyrir sunnan Bowen í Queensland.  Þar með skiljast þeirra leiðir. Weitemeyer sér hann svo ekki aftur fyrr en þeir hittast rétt fyrir utan bæin Ravenswood í Norður Queensland.  Þar voru þeir báðir að leita að gulli á svæði sem var talið hafa gull.  Þeir unnu saman að leitinni og gullgreftrinum um tíma, en svo veiktist Þorkell og deyr.  Hægt er að lesa bók Westmeyer’s Missing Friends á netinu hér.   Samkvæmt innflytjenda bókum, kom Weitemeyer til þorpsins Bowen frá Hamborg á skipinu Humboldt, 10. apríl 1872. Ekki finnst á farþegalistanum maður sem nefndur er Thorkell. Það voru 365 farþegar um borð, þannig að sennilega hefur Þorkell notað Danskt nafn. Það hefur ekki tekist að finna Þorkell, hvorki á Íslandi eða Danmörku, þannig að ekki er meira vitað um hann en það sem Weitemeyer skrifar um vin sinn Thorkell, eins og hann kallar hann.

Fyrir 1873 kemur Jóhann Pétur Oddsson Thorarensen

Jóhann Pétur Oddsson Thorarensen er fæddur 6 Maí, 1830 á Nes í Seltjarnarnessókn.  Hann er barn Odds Stefánssonar Thorarensen (F. 2. sept. 1797, D. 27. nóv. 1880) lyfsala og fyrstu konu hans Sólveig Bogadóttir (F. 27. okt. 1801, D. 7. mars 1835).  Hann starfaði sem lyfsali á Akureyri þangað til hann fer til Kaupmannahafnar 1864.  Hann flytur svo til Melbourne í Ástralíu einhvern tímann fyrir 1873 og kallar sig þá Johan Peter Thorarensen.  Hann sest þar að og setur upp lyfjaverslun.  Árið 1873 giftist Agnes Thorne Rebecca (F. 1840, D. 1920).  Seinna fluttist hann til Sydney og rak lyfjaverslun þar í 62 Erskine Street, Sydney.  Hann deyr 81 árs gamall þann 11. maí, 1911 í Melbourne, en er jarðaður í Rockwood kirkjugarðinum í Sydney.  Ekki er vitað hvort þau hjónin hafi eignast afkomendur.

Mynd af legsteini Jóhann Pétur Oddsson Thorarensen í Rockwood kirkjugarðinum í Sydney
Legsteinn Jóhanns Pétur Oddssonar Thorarensen í Rockwood kirkjugarðinum í Sydney.

1892 Guðmundur Jóhannesson

Guðmundur Jóhannesson fæddist 11. febrúar 1852 í Sauðanessókn, N-Þingeyjasýslu.  Hann er barn Jóhannesar Jónssonar bónda á Syðralóni (1810 – 1866) og Margrét Jónsdóttir (1823 – 1897).  Margét er húsfreyja að Ytribrekku, Sauðanessókn árið 1880.  Sagt er að hún hafi farið frá Ytribrekku til Vesturheims 1883.  Guðmundur Jóhannesson var á Syðralóni, Sauðanessókn, N-Þing. 1860. Vinnumaður á Ytribrekku, Sauðanessókn, N-Þing. 1870. „Fór til Borgundarhólms“, segir Einar prófastur.  Fór til Vesturheims. Síðustu fréttir herma að hann hafir verið í Ástralíu 1892 og hafi orðið mannætum að bráð. Það er líklegt að hann hafi verið sjómaður og skipið sem hann sigldi á hafi strandað á einni af eyjunum sem eru í Suður-Kyrrahafinu. Það eru önnur dæmi til um það, þar sem áhöfnin var drepin af þeim innfæddu.

1888 kemur John Nelson

John Nelson fæðist á Íslandi, sennilega í kringum 1857.  Hann tekur upp Ástralskt ríkisfang 6. september 1898, þá sagður 40 ára gamall.  Þar telur hann fram að hann býr á 159 Cumberland Street í Sydney, sem er í Rocks, elsta hverfi borgarinnar niður við höfnina.  Hann er sagður verkamaður og skráir að hann hafi komið til Sydney árið 1878 á skipinu Maderia.  Það mun ekki vera rétt, því samkvæmt innflytjendaskýrslu kemur hann til Sydney hafnar 16 Nóvember, 1888 á skipinu Jennie B frá Port Puget Sound.  Þar er hann háseti um borð og er sagður heita John Nelson, 31 árs frá Íslandi.  Ekki er meira vitað um hann, eða hver hann var á Íslandi. Það er hugsanlegt að hann hafi farið til Vesturheims og komið þaðan til Ástralíu.

Eru fleiri?

Þetta eru fyrstu átta Íslendingarnir sem fundist hafa heimildir fyrir.  Ég er nokkuð viss um að það eru aðrir, en helsta vandamálið við leitina er sú staðreynd að orðið Iceland er mjög oft ruglað saman við orðið Ireland.  Þetta skeður þegar verið er að tölvu-setja skrifaðar heimildir.  Ekki hjálpar til að flest allir Íslendingarnir taka upp nýtt nafn við komuna til Ástralíu.  Ég hef ekki leitað eftir fleirum en þessum fyrstu átta, en vona að aðrir geti tekið upp hanskan og haldið áfram með þennan lista.  Allavega, það er mín von.