Árni Ólafsson Thorlacius

Upvaxtarár á Íslandi

Drengur þessi er fæddur á bænum Innri-Fagradal á Skarðströnd, þann 28. nóvember 1836. Drengurinn er skírður 4. desember Árni Ólafsson Thorlacius. Hann er fjórða barn foreldra sinna, sem voru Ólafur Ólafsson Thorlacius bóndi og hreppstjóri (f. 1804, d.1837) og Helga Sigmundsdóttir (f.1805, d.1865). Ólafur, faðir Árna var bróðir hins þekkta kaupmans og veðurathugunar manns Árna Ólafsson Thorlacius (f.1802, d.1891) sem bjó í Stykkishólmi. Þess má geta hér að einn bróðir Árna, Þorleifur Ólafsson Thorlacius (f.1833, d.1882) er langa langafi Guðna Thorlacius Jóhannessonar, núverandi forseta Íslands.

Árni er aðeins rúmlega tveggja mánaða þegar faðir hans Ólafur deyr þann 8. febrúar 1837. Við fráfall Ólafs leysist heimilið upp og er ástandið þannig árið 1839 að Árni er komin í fóstur hjá Hans Pálsson Hjaltalín (f.1787, d.1843) og konu hans Guðnýju Pálsdóttur (f.1789, d.1847) á eyjunni Elliðaey á Breiðafirði. Móðir Árna, Helga Sigmundsdóttir var þá búin að gifta sig aftur (Þorleifi Jónssyni, kaupmanns á Bíldudal) og flutt til nýja eiginmannsins með hin börnin á Bíldudal. Árni er á Elliðaey þangað til að fóstur faðir hans deyr þann 21. júlí 1843. Það verður til þess að ekkjan, Guðný Pálsdóttir fer til Stykkishólms með Árna og sest þar að í tómthúsi sem hét Jaðar. Þar er Árni hjá henni þangað til Guðný fóstra hans deyr 20. mars 1847. Árni er þá 10 ára gamall, þannig að föðurbróðir hans og jafnframt nafni, Árni Ólafsson Thorlacius kaupmaður tekur hann til sín í Norska húsið, sem stendur enn og er núna byggðasafn Stykkishólms. Árni dvelur hjá nafna sínum þangað til hann fermist þann 2. júní 1850, 13 ára gamall í Húsafellskirkju. Prestur getur þess að Árni sé „all vel gáfaður og kunnandi og sæmilega friðsamur“.
Eftir ferminguna virðist sem Árni hafi verið sendur erlendis, því engar heimildir aðrar finnast um hann, önnur en sú að í Hallbjarnarætt.220 segir „sigldi“, fór utan. Er líklegast að hann hafi verið sendur til Danmerkur. Ég hef leitað í Dönskum heimildum en hef ekki enn fundið hann þar. Hann fer til Danmerkur rétt eftir manntalið sem gert var þar árið 1850 og er farin þegar næsta manntal á sér stað 1855.

Komið til Ástralíu

Árni hverfur því af sjónarsviðinu um stund, allavega þangað til hann birtist í borginni Hong Kong, í ágúst 1855. Þar tekst honum að ráða sig sem léttadreng á fraktskip sem hét Abeona. Abeona var 220 tonna barkarskip sem var í siglingum á milli Hong Kong og Sydney í Ástralíu. Skipið yfirgefur Hong Kong og siglir til Sydney borgar. Þangað er komið þann 15. október 1855. Árni er nefndur sem skipsverji og sagður vera 18 ára drengur frá Íslandi. Hann kallar sig við komuna til Sydney, Antonio Woolier. Það verður svo það nafn sem hann gekk undir í Ástralíu.
Árni virðist hafa kunnað vel við sig í Ástralíu, því í ágúst 1857 er hann sem nemi í úrsmíði hjá úrsmíðameistara sem hét Andrew Flower. Andrew Flower þessi var með skartgripaverslun í Sydney á þessum tíma.

Árni gerist hetja og björgunarmaður

Það næsta sem skeður er að Árni verður þáttakandi í mannskæðasta sjóslysi í sögu Nýju Suður Wales fylkisins fyrr eða síðar. Farþega og flutninga skipið Dunbar leggur af stað frá Plymouth, Englandi þann 31. maí 1857. Ferðinni var heitið til Sydney og voru um borð 63 farþegar, ásamt 59 í áhöfn. Skútan var eitt af þeim farþegaskipum sem aðalinn notaði til þess að ferðast á milli Englands og Ástralíu. Dunbar var 62m metra löng, þriggja mastra skúta, byggð úr besta fáanlegu viði í Englandi á þessum tíma.

Málverk af skútunni Dunbar.  Stór skúta með þremur möstrum.
‘The Dunbar New East Indiaman’, Illustrated London News (24 December 1853). ANMM Collection 00000957.

Eftir 81 daga siglingu að kveldi 20. ágúst 1857, kemur skútan Dunbar upp með austurströnd Ástralíu áleiðis til Sydney. Það var leiðinda veður þennan dag, rok, rigning og skyggni lélegt. Til að sigla inn í Sydney höfnina, þá þarf að sigla á milli suður og norður höfðana, sem eru 25-60 metra há klettabelti sinn hvoru megin við innsiglinguna. Skipstjóri Dunbar siglir í norðurátt upp með austur ströndinni og ætlar að beygja skútunni inn á milli höfðanna. Skipstjórinn gerir þá þau misstök að beygja of snemma inn í höfnina, því rétt sunnan við suður höfða er breitt og djúpt bil í klettinum sem er kallað “The Gap“ (ísl. Þýð: Opið). Það endar í klettahamri sem er nánast óklífandi.

Mynd af The Gap
Horft í norðurátt á bilið í klettunum sem er kallað The Gap. By Adam.J.W.C. – Own work, CC BY-SA 3.0

Þegar skipstjórinn áttar sig á því að hann er ekki að fara á milli suður og norður höfðanna, þá er það orðið of seint. Dunbar lendir á klettum og veltur á hliðina og brotnar niður í sjóganginum. Farþegar og áhöfn sópast frá borði og farast allir nema einn áhafnarmeðlimur sem hét John Johnson. Honum tókst að ná að hanga í braki og stór alda þeytti honum upp á klettasillu sem var neðst við klettahamrana. Þar tókst honum að draga sig upp hærra til að komast hjá því að skolast út aftur. Hann er svo langt inn undir klettahamrinum að hann sést ekki að ofan, sem var og er enn í dag vinsæll útsýnisstaður. Strandið uppgötvast ekki fyrr en um morguninn daginn eftir. Þá varð uppi fótur og fit í borginni og voru bátar og menn sendir á staðin til að bjarga þeim sem hægt væri. Það var ekki einu sinni vitað hvaða skip þetta var fyrr en seint um daginn, þegar menn fundu brak með nafni skútunnar. Því miður fannst engin á lífi þann daginn, þannig allir 122 sem voru á skútunni voru taldir hafa farist.

Það er svo 22. ágúst, eða annan daginn eftir strandið rétt fyrir hádegi að Árni og Andrew Flower meistarinn hans fara út á “The Gap“ ásamt þúsundum Sydney búa til að berja augum flakið af skútunni, ásamt því að fylgjast með bátum sem þar voru enn að leita að fólki eða taka upp lík og brak sem flaut um allt. Árni er ákaflega forvitin ungur maður og fær leyfi hjá meistara sínum að klifra aðeins niður fyrir klettaveggin til að sjá betur. Hann sér þá hendi langt niðri í klettunum að veifa klút. Við það fer hann upp aftur og gerir viðvart. Menn á hestum sækja reipi og bjálka sem eru settir upp til að slaka niður reipi. Úr verður að Árna er slakað niður á staðin þar sem sást til mannsins, enda hann ungur og lipur. Þar finnur hann John Johnson, eina mainn sem komst af úr þessu hræðilega skútu strandi. John Johnson er dregin upp og stuttu seinna Árni. Það var mjög dregið af John Johnson, en hann staðfestir að skútan sem hann var á héti Dunbar. Hann er að vonum hálf dasaður og er hjálpað inn á hótel og settur undir læknis hendur.

‘The Sailor Rescued’ or ‘ The rescue of the survivor, Johnson’ engraved by WG Mason from a sketch by GF Angas, in ‘A Narrative of the melancholy wreck of the “Dunbar”, merchant ship, on the south head of Port Jackson, August 20th, 1857’ 1857

Árna voru gefin þurr föt og fólk á staðnum safnaði í sjóð handa honum. Honum voru svo afhent tíu pund. Hann mun hafa sagt þá á frekar lélegri ensku “I did not go down for the money, but for the feeling in my heart“ (ísl. Þýð: “Ég gerði þetta ekki fyrir peninga, heldur fyrir tilfinningar í hjarta mínu“). Nokkrum dögum seinna var auglýst söfnun til handa Árna í dagblöðunum. Þar söfnuðust rúmlega 88 pund í viðbót. Af þeim voru 75 pund sett á bankareikning og Árna afhent mismunurinn.

Auglýsing í Áströlsku blaði um að safnast hafi peningar fyrir djarfa íslendingin.
Frétt úr blaðinu Sydney Morning Herlad, 17 Október 1857

Í það heila áskotnaðist Árna um 100 pund fyrir þetta afrek sitt. 100 pund á þessum tíma voru ansi miklir peningar. Í núvirði eru það í kringum 8,5 milljón íslenskar krónur. Virtur blaðamaður og útgefandi, Samuel Bennet orti langan ljóðabálk um þennan atburð og gaf út sem einblöðung nokkrum árum seinna. Eftirfarandi er kaflin þar sem Árna er getið. Hér birt eins og það var gefið út;
What daring heart will venture down to tell if yet,there be
A living thing amid those rocks, that wreck, and troubled sea,
Where billows, broken in their course, and baflled in their aim.
Against that face of stubborn rock run up like tongues of flame ?
Where leaping waters, high upborne, baulked of their human prey,
The frowning cliffs fling back in scorn, an avalanche of spray !
A stranger youth – a child in truth – from that far frozen shore
Where shivering Iceland to the sky lifts up her mountains hoar –
Where through long nights of winter the bright Aurora gleams –
Where burning Hecla to the sea pours down its fiery streams ;
Devoid of fear did volunteer to search that deep abyss,
If aught alive might yet survive beneath that precipice.
With iron nerve he did not swerve, or from his task retreat,
By slender cord that boy was lowered sheer down three hundred feet.
Where the briny spray was drifted like clouds against the sky ;
Where sheets of foam were lifted full fifty fathoms high !
Those anxious looks of deep suspense did still more painful grow
When from the lad the signal came, “A man alive below !“
What sight of joy for that brave boy, as o’er the surf he hung
To see in cavern dripping dark where the salt spray was flung
That lonely man whose aspect wan (in dread of fearful doom)
Told but for him that cavern grim had been a living tomb ;
And when the boy ascended, who such peril dire had braved,
His work of mercy ended— with that hardy seaman saved –
A deafening shout of joy rang out from all that eager crowd,
“Thank God ! the man is rescued,” from a thousand voices loud !
And praise was heard on every side, and gold was offered free
To him whose deed in hour of need saved from that raging sea,
But the boy replied, with honest pride, “I did not do that deed,
Nor risk my life, ‘mid the breaker’s strife, for gold nor love of greed,
From the honest feelings of my heart did I that danger brave –
Enough for me let the payment be – I did that sailor save.“

Árni tekur þátt í gullæðinu

Árna hefur farnast vel eftir þessa hetjudáð hans, því í desember 1858 er meistarinn hans, Andrew Flower að auglýsa eftir nýjum nema í úrsmíði. Það er líklegt að Árni hafi hætt úrsmiðanáminu og tekið upp önnur störf, enda búin að eignast töluvert af peningum. Það er svo þann 21. september 1859 að Árni giftist ungri stúlku sem hét Sarah Fitch frá Sydney. Hún var yngri en hann og yngri en 21 árs. Það þýddi að hún mátti ekki giftast nema með sérstöku leyfi fjölskyldunnar. Það leyfi var áritað af eldri bróður hennar sem hét John Fitch.

Á þessum skjölum er Árni sagður vera námamaður og búa í þorpinu Araluen í Nýju Suður Wales.

Þorpið er í suður hluta fylkisins, nálægt bæ sem heitir Braidwood. Á þessum tíma var gullæði í fullum gangi og hafði fundist gull í dalnum þar sem þorpið er og er það ástæðan fyrir því að þorpið varð til. Árni og Sarah konan hans hljóta að hafa yfirgefið Araluen fljótlega eftir giftinguna, því í byrjun 1861 er hann komin á annan stað sem kallaðist Gulf Diggings (Í dag heitir þessi staður Nerrigundah). Staður þessi er ekki langt frá stórum bæ, sem heitir Moruya. Það má segja að þau hjónin hafi verið heppin að yfirgefa Araluen, því í ágúst 1860 kemur þar skyndiflóð, sem var svo stórt að þorpið lagðist nánast í rúst og drukknuðu 24 manns.

Árni ásamt félaga sínum setja upp verslun í Gulf Diggings. Þessi verslun var sérstaklega fyrir gullgrafara, með matvæli, gullgrafara tæki og að sjálfsögðu áfengi til sölu. Allt varð að borga með peningum eða gulli. Árni virðist hafa flutt áleiðis þangað með konuna sína, því þau eignast stúlkubarn, þann 14. apríl 1861 í þorpinu Moruya sem er stærsta þorpið þar nálægt. Barnið er skírt Rosetta Woolier, en deyr stuttu síðar.

Blöðin fjalla um eina ferð Árna og félaga hans frá gullgrafarabænum til þorpsins Braidwood þar sem þeir komust í banka og segja eftirfarandi: “On Monday evening last, Mr.Edward Smith and Mr. Antonio Woolier arrived in Braidwood from the Gulf diggings, bringing two large parcels of gold. lt is more nuggetty than any that has yet been obtained, and was purchased by the banks for £3 19s. per ounce. The two parcels weighed about 250 ounces;“ (ísl. Þýð: “Síðasta Mánudagskvöld komu Hr. Edward Smith og Hr. Antonio Woolier til bæjarins Braidwood frá gullgrafarabænum Gulf Diggins. Þeir komu með tvo stóra pakka af gulli. Gullið eru misstórir molar sem hafa ekki fengist áður. Bankarnir keyptu það fyrir 3 pund og 19 shillings fyrir hverja únsu. Pakkarnir tveir vógu um 250 únsur.) 250 únsur eru rúmlega 7kg af gulli og væru andvirðið um 46 milljóna króna í dag. Ekki tókst Árna og félaga hans betur en svo að rúmu ári seinna er þetta verslunar fyrirtæki þeirra komið í gjaldþrotameðferð.

Árni gerist veðmangari

Um mitt árið 1863, koma Árni og konan hans aftur til Sydney frá þorpinu Moruya og nokkrum mánuðum seinna flytja þau suður til Melbourne, sem er stærsta borgin í Victoríufylki. Þar byrjar Árni sinn feril sem verðmangari í kappreiðum hesta. Hann var með skrifstofu í Bourke Street í Melbourne, þar sem menn gátu komið og veðjað á veðhlaupahesta. Hann fór einnig á veðreiðarnar og bauð fólki að veðja þar. Ekki nóg með það, árið 1873 kaupir hann veðhlaupahest sem var kallaðu Royal Charlie og keppti á honum sjálfur í frægu veðhlaupi í Melbourne sem heitir Caulfield Cup. Hann kom fjórði í mark, þrátt fyrir að hesturinn hans féll og hann varð að koma honum á fætur, fara á bak aftur og klára hlaupið. Þetta hefur verið Árna nóg því ekki keppti hann sjálfur eftir þetta. Hann hélt sig við verðmangarastarfið og sótti veðhlaupin, bæði í Sydney og Melbourne.
Þann 14. nóvember 1868 eignast þau hjónin dóttir sem er skírð Helga Florence Woolier. Helgu nafnið kemur sennilega frá móður Árna, Helgu Sigmundsdóttur.

Mynd af fæðingavottorði dóttir Árna þar sem hann í fyrsta skipti skrifar sitt íslenska nafn.
Fæðingavottorð dóttur Árna þar sem hann í fyrsta sinn skrifar sitt Íslenska nafn. (Victoria Birth, Deaths and Marriages.)

Þau eignast þriðju dótturina þann 3. nóvember 1870 sem er skírð Alice Gertrude Woolier, en hún deyr fimmtán mánuðum síðar.
Á þessum árum byrjaði Árni að gefa út árlega, bækling sem hét “Backers Guide“. Þessi bæklingur var fullur af upplýsingum um veðhlaup og hesta. Hann mun sennilega vera með þeim fyrstu sem gáfu út slíkan bækling í sambandi við veðhlaupin í Ástralíu.

Mynd af forsíðu ensk bæklings kallaður Backers Guide fyrir árið 1874.  Útgefin af Árna.
Backers Guide, útgefin á vegum Árna.

Árið 1873 er sagt að hann hafi unnið 4,000 pund á veðreiðunum, sem í dag væru um 40 milljónir íslenskar. Það var sagt seinna að hann hefði fjárfest í hlutabréfum í gullnámum, en fæst þeirra skiluðu honum neinum arði og flest af þeim hlutabréfum urðu einskis virði.

Árið 1876 fer að halla undan fæti hjá Árni sem veðmangari. Hann lendir í útistöðum við bakara og er handtekin af lögreglunni. Þar er honum lýst sem svo á ensku “Bookmaker, about 40 years of age; 5 feet 6 inches high; stout build, smart, active apperaance; fair complexion and hair; clean shaven. He formerly kept a tobacconis’st shop in Bourke Street east, Melbourne“ (ísl. Þýð: Veðmangari, um það bil 40 ára gamall; 168 cm hár; feitlagin, vel klæddur, vel virkur að sjá; ljóst yfirbragð og hár; vel rakaður. Hann rak tóbaksverslun í Bourke Street í austur Melbourne.) Málið virðist enda með sekt, því hann fer ekki í fangelsi. Ári seinna fellur úr gildi leyfisveiting hans sem veðmangari. Þá tekur nýtt ævintýri við!

Árni fer aftur í gullæðið

Í ársbyrjun 1880 fer Árni og nýr félagi hans af stað og setja á fót nýja verslun í gullgrafarabæ sem heitir Temora og er í Nýju Suður Wales. Eins og áður, þá hafði fundist gull á svæðinu og bærinn reis með það sama, þegar allir flykkjast til að grafa eftir gulli. Árni og félagi hans setja upp þessa verslun á stað sem var kallaður Lower Temora og voru þeir við hliðina á annari verslun sem hét Kybbi’s store.

Mynd af námamönnum fyrir utan verslun.  Tekin árið 1880.
Gullgrafarar fyrir utan verslunina KIBBY´S. Verslun Árna og félaga var hægra megin við þessa verslun, en sést ekki á henni. Mynd tekin árið 1880. (From the collection of the State Library of New South Wales.)

Rúmu ári seinna er eins komið fyrir þessari verslun og hinni fyrri. Hún fer í gjaldþrot og Árni snýr aftur til Melbourne.

Síðustu árin

Árni virðist hafa verið mikill drykkjumaður síðustu árin eftir því sem sagt er um hann. Síðustu árin starfaði hann fyrir kirkjusamtök í Melbourne. Hann deyr í Melbourne 5. febrúar 1889 aðeins 52 ára gamall. Konan hans Sarah og dóttir, Helga Florence höfðu flutt nokkrum árum áður aftur til Sydney. Þegar minnst er á Árna í blöðunum, þá var hann alltaf talin mjög góðhjartaður maður og var vel liðin af öllum. Var sagt að þessi góðmennska hans hefði verið stór þáttur í því að hann varð aldrei stórefnaður viðskipajöfur.

Hann lét eftir sig ekkjuna Söru Woolier og eina dóttur Helgu Florence Woolier. Helga dóttir Árna giftist James Hitchen þann 7. mars 1874. Þau hjónin eignast eina dóttur árið 1895, sem einnig er skírð Helga Florence. Kona Árna, Sarah Woolier, deyr svo í Sydney 2. mars 1903.
Dótturdóttir Árna, Helga Florence Hitchen giftist hermanni sem tók þátt í fyrstu heimstyrjöldinni og hét James Alexander Day. Þau gifta sig í Sydney 4. apríl 1920 eftir stríðslokin. Það virðist sem þau hafi ekki eignast nein börn, en Helga Florence Day, deyr í Sydney 16. september 1943.
Heimildir:
• Þjóðskjalasafn Íslands; Prestsþjónustubækur, Sóknarmannatöl, Manntöl
• Hallbjarnarætt; útgefin 1987
• State Library of NSW
• Birth, Deaths and Marriages of NSW
• Birth, Death and Marriage of Victoria
• https://trove.nla.gov.au
• ANMM (Australian National Maritime Museum